Himingeimar
Himingeimar image

Leikum okkur saman

29. - 31. ágúst 2025

Heimar og Himingeimar er samkoma búningaáhugafólks og fólks í búningaíþróttamennsku til að kynna og upphefja jákvæða og þroskandi leikhegðun fyrir fólk á öllum aldri. Staðið er að heilli helgi af skemmtun, sköpun, keppnum, smiðjum og kynningum auk námskeiða í aðdraganda samkomunnar. Maðurinn er aldrei of gamall til að leika sér, skapa og gera lífið skemmtilegra og nota ímyndunaraflið til að ferðast bæði um heima og himingeima.

3

Dagar
af skemmtun, sköpun, skylmingum, og stórkostlegum nördaskap

~15

Smiðjur og viðburðir
Komdu, skoðaðu alla flóruna og taktu þátt

3

Heimar
til að taka þátt í, upplifa og skoða

DAGSKRÁ

29. ágúst 2025

Heimar og smiðjur opna
17:00
Smiðja - Boffers
17:00-18:00
Vélmennaveiðar!
17:30-20:00
Bardagasýning - Vader vs. Allir
18:00
Ljósmyndahorn
18:00-19:30
Bofferbardagi á útisvæðinu
19:00
Húsið lokar
20:00

30. ágúst 2025

Heimar og smiðjur opna
11:00
Vélmennaveiðar!
11:15 - 20:00
Kynning - Sögulegur klæðnaður | 2. hæð
11:15 - 12:15
Vader vaknar - Búningasýning | 1. hæð
12:00
Smiðja - Boffers | Barnadeild
12:00 og 14:00
Kynning - Miðaldaskrautskrift | 2. hæð
13:00
Ljósmyndahorn | Barnadeild
13:00-14:00 og 16:00-17:00
Bofferbardagar | Útisvæði
13:00, 15:00 og 17:00
Bardagasýning | Útisvæði
13:30 og 16:30
Marie Antoinette - Búningasýning | 1. hæð
14:00
Kynning - Fursuits | 2. hæð
14:00
Kynning - Leðurverk | 2. hæð
15:00
Risabrúður - Búningasýning | 1. hæð
16:00
Kynning - Maille | 2. hæð
16:00
Kynning - Geimbrynjur | 2. hæð
17:00
Cosplay Walk-on! | 1. hæð
18:00
Úrslit Cosplay-keppninnar | 1. hæð
18:30
Húsið lokar
20:00

31. ágúst 2025

Heimar og smiðjur opna
11:00
Vélmennaveiðar!
11:15 - 17:00
Smiðja - Boffers | Barnadeild
12:00 og 14:00
Ljósmyndahorn | Barnadeild
15:00
Bofferbardagar | Útisvæði
13:00 og 15:00
Húsið lokar
17:00
Opið workspace | 2. hæð
11:15 - 16:45

SMIÐJUR

Það verður nóg að gera hjá okkur. Komdu og vertu með! Efni er ókeypis og við getum skapað og búið til á meðan birgðir endast. Smiðjurnar eru rúllandi og komast nokkrir að í einu, en ekki er sérstök skráning í þær. Biðjum við því fólk um að sýna þolinmæði og skilning og vera kurteis við þau sem hingað eru komin til að kynna áhugamál sín.
Hér eru nokkur dæmi um það sem verður i boði:

Boffervopn

Boffervopn eru sverð búin til úr frauði utan um plastkjarna. Þau eru notuð í ævintýrakvikspuna og herkænskuleikjum, svipuðum og málningarskotleikjum (Paintball) nema með sverðum. Þau þurfa að standast vissar kröfur um form og mýkt til að teljast örugg. Þegar sverðið er tilbúið og tékkað af okkar fólki er hægt að fara út á bardagavöllinn og taka þátt í bofferslag. Boffersmiðjur verða með reglulegu millibili alla dagana, og fara eftir efnisframboði.

Maille

Maille/hringabrynjugerð er listin að setja saman litla málmhringi og/eða litlar málmplötur sem stundum eru kallaðar drekarhreistur (dragonscale) til að búa til fallegar brynjur og skartgripi. Hér má koma við hjá listafólkinu frá Blood, Sweat & Tyr og læra að klemma grunn í skartgripagerð úr drekahreistri. Smiðjan verður á 2. hæð og er í boði þegar kennarar eru á svæðinu og á meðan efniviður endist.

Skáldastúkur

Handstúkur eru skemmtileg og einföld viðbót sem eru mikið notaðar í Cosplay og sögulegum búningum. Teygjanlegt armband er skreytt með blúndu og bryddingum sem fara svo á skyrtur eða boli. Hér er hægt að bæta smá glæsileika í gallann sinn og kynnast saumaskap. Smiðjan verður á 2. hæð, og er í boði þegar kennarar eru á svæðinu og á meðan efniviður endist.

Hittingar

Fram að Heimum og Himingeimum er hægt að hitta okkur í búningasmiðju þar sem við vinnum saman og hjálpumst að. Smiðjurnar verða einu sinni í mánuði í júní og júlí, á laugardegi, en svo hittumst við alla þriðjudaga í ágúst og græjum okkur fyrir Heima! Eins verður búningasmiðja í gangi, leidd af sama fólki, alla daga Heima og Himingeima, og auðvitað öll tæki og tól a svæðinu. Athugið að koma þarf með eigið fataefni ætlunin er að sauma.

Heimar

Viltu fara út í geim? Leggja upp í ævintýraför og hvílast á förumannakrá? Ferðast aftur í tímann? Við getum aðstoðað...

Stjörnuspillirinn

Vissir þú að í Stjörnuspillisherskipum Keisaraveldisins eru yfir 37.000 manns í áhöfn? Við erum kannski ekki svona mörg, en við erum með Stjörnuspilli! Komdu með okkur í ferðalag til stjörnuþöku langt, langt í burtu...

Förumannakráin

Vertu velkomin! Kemur þú langt að? Hvað hefur á daga þína drifið? Vertinn á förumannakránni vill gjarnan heyra hvað þú hefur verið að gera - og hver veit, kannski sendir hann þig út af örkinni í nýja sendiför...

Fortíðin

Aðeins sá sem veit hvaðan hann kemur veit hvert hann er að fara. Allt frá fornöld til endurreisnar á heima hér - sverð og skildir, saumnálar og skrautskriftarstólar. Hvenær vilt þú vera í dag?

Cosplay-keppnin

Cosplay er þegar fólk klæðist búningi sem er annanhvort endursköpun á persónu úr einhverju afþreyingarefni, eða hannar sinn eigin búning sem passar inn í fyrirfram skapaðan söguheim.

Keppnin er öllum opin og með sérstökum flokkum til að tryggja sanngjarnt mat á mismunandi stigum kunnáttu og reynslu. Til viðbótar við þekktar persónur eru eigin persónur (original characters) leyfðar. Allir búningar úr hvers kyns búningaáhugamálum er gjaldgengir í þessari keppni.

Keppt er í þremur flokkum:
Ungliðaflokki (undir 14 ára)
Cosplayflokki (14 ára og eldri)
Handverksflokki (meira en 60% af búningi er heimagerður/ekki aðkeyptur).

Um heima

Heimar og Himingeimar er sameiginlegt átak búningaáhugafólks og fólks í búningaíþróttamennsku tengdum búningaáhugamálum til að kynna og upphefja jákvæða og þroskandi leikhegðun fyrir fólk á öllum aldri, bæði sem áhugamál, íþrótt og fjölskylduvænt verkefni fyrir alla aldurshópa

Upprunlega varð hugmyndin til þar sem hópurinn sem stendur að hátíðinni sá að enginn vettvangur var fyrir unga sem aldna í áhugamálinu til að hittast, tengjast og gleðjast saman. Samkoman er hugsuð fyrir einstaklinga í jaðaráhugamálum tengdum búninga- og leikmunagerð en auðvitað eru allir velkomnir í búningi eður ei, á öllum stigum og hver eftir sínu nefi og þægilegheitum, enda eru mikilvægustu skilaboð Heima og Himingeima að vera maður sjálfur og leika sér.

Hátt í 4.000 manns mættu á fyrstu hátíðina í ágúst 2024, langt fram yfir áætlaðan fjölda. Við ætlum að halda áfram og gera betur - og leika okkur um Heima og Himingeima.

Gallery

Teymið

Heimar og Himingeimar er skipulagt í samstarfi við Bókasafn Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarbæ. Teymið samanstendur af áhugafólki á búningaleikjum sem hafa bakgrunn í félagsvísindum, samfélagslegu starfi og viðburðastýringu með aðkomu skipulagðra leikjahópa hérlendis. Þau eru alger nörd, öll saman.

Að Heimum og Himingeimum standa:

Nánari upplýsingar

Heimar og Himingeimar er samkoma leidd af nördum sem eru orðin stór, einu-sinni-krökkum sem pössuðu ekki alveg inn í hópinn og brenna fyrir að börn og ungmenni finni sinn hóp og að þau sem eldri eru og hafa alltaf bara nördast í skápnum viti að þau eru ekki ein, eru velkomin og að enginn er „of gamall“ til að leika sér. Stefna Heima og Himingeima er að stuðla að upphafningu búningaáhugamálsins á jákvæðan, opinn og styðjandi máta og að leggja áherslu á félagslegan þátt spuna- og búningaleikja, sporna gegn félagslegri einangrun, skapa öruggt rými fyrir ungmenni sem ekki finna sig í almennum íþróttum þvert á kyn- og kyngervi, hampa leikgleði og efla sjálfstraust ungmenna, kenna handverk og hvetja til virkar þátttöku almennings í andlega gefandi skemmtun og samfélagi.

Samkoman er hugsuð fyrir einstaklinga í jaðaráhugamálum tengdum búninga- og leikmunagerð, ásamt endursköpun og spunaleikjum, til að kynnast, hittast og tengjast og rjúfa félagslega einangrun þvert á aldur og áhugamál, og brjóta á bak aftur staðalímyndir og kreddur. Með því að sýna allt sem er í boði og hvetja til þátttöku í efnisheimi á skapandi hátt og með ríka áherslu á samskipti og samveru þvert á aldur ásamt jákvæðum fyrirmyndum má efla sjálfstraust og styrkja fólk andlega til ytri samskipta.

Heimar og Himingeimar leggur áherslu á íþróttir sem krefjast sögulegs fatnaðar (s.s. sögulegar evrópskar skylmingar / HEMA) og búninga (leik- og sviðsbardagar, dans og skylmingar). Við skiljum mikilvægi þess að stunda heilbrigða hreyfingu og viljum upphefja slíkt innan hópa sem oft hafa ekki haft áhuga á hefðbundnum keppnisíþróttum.

Mikilvægi samneytis og að verja tíma með börnum og unglingum hefur mikið verið í deiglunni undanfarið og hér gefst frábært tækifæri fyrir foreldra að tengjast börnum sínum og ungmennum betur og jafnvel uppgötva sjálf áhugamál sem þau geta deilt með börnum sínum og stuðlar hátíðin þannig að heilbrigðum tengingum þvert á aldurshópa. Með því að opna þeim og foreldrum þeirra aðgang að reyndari einstaklingum innan hópsins getum við ekki aðeins ýtt undir skapandi vinnu heldur einnig kynnt þennan heim fyrir fólki sem þekkti hann ekki og boðið foreldrum ungmenna stuðning, en innan hópsins eru m.a. félags- og tómstundafræðingar, sálfræðingar og mannfræðingar.

Mikilvægt er að aðgangur og þátttaka öll sé ókeypis. Fólk býr við afar mismunandi kjör og því var lagt upp með frá upphafi að hafa viðburðinn eins aðgengilegan og mögulegt væri; efnahags- og félagslega og óháð líkamlegu atgerfi. Þátttaka í smiðjum, verkefnum, keppnum og samtalshópum er með öllu án endurgjalds og er samkoman að nær öllu leyti unnin af sjálfboðaliðum sem láta sig málefnið varða.

Ef foreldra og forráðamenn vantar frekari upplýsingar bjóðum við þeim að hafa samband við verkefnasstjóra Heima og Himingeima á [email protected] eða í síma 585 5690.

Hvað er hvar? Hér er það!

Hvað eru Heimar og Himingeimar? Heimar eru samkoma búningaáhugafólks þvert á áhugamál og spannar allt frá menntuðum klæðskerum til myndasögunörda og bardagafólks.

Hver stendur fyrir þessu? Heimar og Himingeimar eru haldnir af fjölda félaga í búningaáhugamálum með stuðningi og styrk Bókasafns Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarbæjar. Heimar og Himingeimar eru styrkþegar Barnamenningarsjóðs.

Mega öll koma? Já. Öll velkomin, alltaf. Við erum öruggt rými, og hér er ekkert aldurstakmark - í hvoruga áttina.

Hvað kostar að koma? Ekkert. Ekki krónu með gati. Mættu bara.

Hvað er búningur? Búningur, sama hvort við ræðum um þjóðbúning eða stormsveitarbrynju, er samansafn af klæðum og aukahlutum sem verða að sérstæðu útliti og/eða klæðnaði þegar við setjum þau saman.

Þarf ég að vera i búningi? Nei – ekki frekar en þú vilt. Það skiptir okkur öllu máli að þér líði vel. Vertu á gallabuxum eða í heimsins stærsta búningi, okkur finnst þú æði eins og þú ert.

Má ég mæta með sverð/vopn? Boffervopn (Larpvopn) eru leyfileg. Einungis þeir sem tilheyra Rimmugýg og HEMA Reykjavík mega hafa á sér stálvopn (life steel) og verður eggin að vera með öllu bitlaus. Skotvopn verða að vera augljóslega leikmunir og merkt með appelsínugulu hlaupi. Nerf-skotfæri eru ekki leyfð á svæðinu. Aukalega má taka fram að loftbyssur (BB guns) eru ólöglegar hérlendis.

Hvar skrái ég mig í Cosplay-keppnina? Smelltu hér!

Hvar er klósettið? Á 1. hæð við stigann upp á barnadeildina.
Í kjallara beint niður stigann hjá barnadeild.
Á 2. hæð bak við upplýsingaþjónustuna.

Ég er svangur/svöng/svangt! Við erum ekki með mat til sölu, en hinumegin við planið er Kaffi Barbara með ýmislegt gott. Hinumegin við hringtorgið er svo Norðurbakkinn og Brikk (Bakaríið, ekki orkurinn). Verslunarmiðstöðin Fjörður er svo mínútulabb í burtu og þar má finna ýmislegt!

Má ég taka myndir? Að klæðast búningi er ekki samþykki fyrir myndatökum. Það má taka myndir, en munið að fá samþykki viðkomandi fyrst. Virðið persónulegt rými, og munið að sumir búningar skerða hreyfigetu og skynfæri. Komið fram við aðra eins og þið viljið láta koma fram við ykkur.
Og taggið okkur á Instagram.

Mér líður illa, hvað á ég að gera? Hvað sem kemur upp, hvað sem gerist - við erum hér. Sérmerkt Safe-Space starfsfólk er alltaf tilbúið að taka á móti þér. Hvort sem þú upplifir þig undir pressu vegna fjöldans, þú verður fyrir áreiti, meiðist, eða líður illa þá erum við hér.
Það er alltaf einn öruggur starfsmaður við Stjörnuspillinn (1. hæð) og einn á Smiðjuhæðinni (2. hæð). Þau eru merkt með hárauðri barmnælu. Einnig eru slíkir starfsmenn á vappi. Gríptu einn – og við hjálpum þér.
Það eru líka róleg hvíldarhorn bæði á barnadeildinni og 2. hæð, ef þú þarft bara smá púst.

Ég meiddi mig! Í afgreiðslunni á 1. hæð er hægt að fá plástra og fleira.

Búningaves? Á 2. hæð er fullt af snillingum sem geta hjálpað. Svo er líka Cosplay Rest Area á sömu hæð og þar má finna tól til að bjarga sér í skyndi.

Mig langar í svona Himingeimabol! Ekkert mál - þú getur keypt svoleiðis hér

Hvern eiga fjölmiðlar að hafa samband við? Fjölmiðlar geta haft samband við Unni Möller, verkefnastjóra Heima og Himingeima í tölvupósti ( unnurmoller [hjá] hafnarfjordur.is ) eða í síma 621-4679.

 

Öll dagskrá er birt með fyrirvara um breytingar

Himingeimar image
Himingeimar